Thursday, December 3, 2009

Frida

Svona í tilefni af því að nú er síðasta vikan í skólanum þá ákvað Hildur spænskukennari að leyfa okkur að horfa á mynd. Hún ákvað að sýna okkur myndina Fridu, sem er um ævi listakonunnar Fridu Kahlo.

Ég hafði ætlað mér að blogga um Hancock - sem er fleh mynd - en þegar ég sá fram á að ég væri að fara að horfa á Fridu, þá sá ég mér gott til glóðarinnar.

Auk þess, hvað er málið með ofurhetju með typpanafni? Ég hugsa bara um Han Cock (samanber Han Solo) sem Han Penis.

En allavega.
Frida! Salma Hayek leikur aðalhlutverkið og ætla ég að byrja á því að skrifa aðeins um leik hennar í myndinni. Eftir að hafa skoðað myndir af Fridu Kahlo þá fékk ég nánast hroll við það hversu lík Salma er henni.

Það hefði eflaust ekki verið hægt að finna hæfari manneskju í hlutverkið.
Ég er einlægur aðdáandi Sölmu, svona oftast. Hún er án efa ein kynþokkafyllsta kona sem ég veit um. En í þessari mynd er þó ekku um að ræða einhvern Megan Fox-leik af hennar hálfu, þar sem hún er að selja kynþokka sinn.
Nei, þvert á móti. Salma leikur stórvel, alveg ótrúlega vel Fridu Kahlo og nær að mínu mati algjörlega að tjá þjáningu hennar, en Frida upplifði nánast stanslausan sársauka alla sína ævi, eftir hræðilegt slys sem hún lendir í sem unglingur. Mér fannst líka æðislegt hvernig þau láta Sölmu líta út fyrir að vera ungling í byrjun og miðaldra konu í endann.

Eina sem fer í taugarnar á mér er þessi helvítis augnabrún, en Frida Kahlo var með unibrow, svo það er reyndar ekkert við því að gera - Salma varð að hafa hana líka.

Og helvítis tussan púllar það nokkuð vel. Ekki gæti ég það.

Kom mér á óvart hversu vel Salma syngur, en hún tekur atriði í myndinni þar sem hún syngur og dansar, ætli það sé ekki þessum suðurameríkubúum bara í blóð borið að kunna tango.

Ætla að gera ráð fyrir því og öfunda þau.

Salma stendur sig allavega stórvel í þessari mynd og ekki er það verra að hún er sjúklega heit eins og alltaf.


Alfred Molina leikur Diego Rivera, sem var mun ljótari í raunveruleikanum.
Hann er feitt listamanns sjarmatröll sem nær að heilla næstum allar konur upp úr skónum. Samband hans og Fridu var stormasamt en undir lokin virtust þau hafa gleymt öllum erfiðunum og voru þau saman þangað til hún lést.

Annars er leikurinn í þessari mynd eiginlega óaðfinnandi, að mínu mati, mér leið nánast aldrei eins og ég væri að horfa á leikna mynd, eiginlega bara eins og ég væri að horfa á hina raunverulegu Fridu Kahlo og samtímamenn á skjánum.


En það er bara ég.


Sagan er sorgleg, hlægileg, ótrúleg og innblásandi allt í senn. Myndin sjálf er skreytt með myndum sem Frida málaði sjálf en þær eru oftast byggðar á líðan hennar. Ótrúlega gaman að sjá hvernig hún fékk innblástur fyrir þær og hvernig þær tvinnast inn í líf hennar.
Auk þess var Frida tvíkynhneigð og það er ekki hægt að neita því að það er ekkert verið að fara framhjá því þegar fólk stundar kynlíf í myndinni. Sem að mínu mati er bara gott.


Hús Fridu stendur ennþá í Mexícó. Skærblátt.
Samkvæmt Hildi spænskukennara er húsið í myndinni mjög nákvæm eftirlíking og gefur víst góða mynd af húsinu hennar Fridu. Þótti það gaman.

Þeir gallar sem ég tók eftir við myndina voru aðallega að það var örlítið erfitt að átta sig á því hvernig tíminn leið í henni. Maður tók aðallega eftir því á hárinu á Fridu, hún klippir það stutt en svo allt í einu er það orðið sítt og þá hugsar maður: "Ó bíddu, er liðinn svona langur tími"
Auk þess sem ég hefði viljað sjá myndina með spænsku tali.
Það er ekki töluð enska af almúga í Mexíkó. Það er bara beisík (þessvegna elska ég Head in the Clouds).

Að öðru leyti var þetta samt mjög góð mynd, verð samt að viðurkenna að ég þarf virkilega að hugsa um það hvort hún rati á topp10 listann minn, þarf að melta það aðeins.
Veit ekki hvort ég muni horfa á hana aftur í bráð, þó góð sé.

Takk fyrir mig, njótið Sölmu Hayek að syngja á spænsku.

More tequila!

Thursday, November 19, 2009

ZOMBIELAND

Litlir fuglar hvísluðu því að mér að þessi mynd væri góð, svo þegar æskuvinur minn ákvað að bjóða mér með sér á hana þá ákvað ég að skella mér. Mér til mikillar armæðu þurfti ég samt að borga á hana sjálf. Fáránlega dýrt að fara í bíó.

Ég vissi eiginlega ekkert um myndina, ég bjóst eiginlega ekki við því að hún væri actually um uppvakninga, heldur héti bara Zombieland og væri sjúklega fyndin mynd.

En svo byrjaði hún og viti menn hún var um uppvakninga.
Sögumanns/aðalpersónan var mér mjög að skapi. Hálf lúðalegur gaur sem virtist hafa ágætis ástæður fyrir því að ferðast einn.
Lýsingarnar á því hvernig skal lifa af árásir uppvakninganna eru mjög kómískar, sérstaklega þar sem sýnidæmi eru gefin á meðan.
Ég skammaðist mín ekkert af því að hlæja af því þegar hann skaut hvern uppvakninginn á fætur öðrum. Það var svo fyndið.
Fannst alveg aulalega gaman að sjá hvernig orð voru sett inn í myndina og litu út fyrir að vera svífandi, fannst það frekar vel gert að þegar einhver hljóp á þau þá færðust þau til.
Aulalega gaman. Ekkert svo merkilegt í sjálfu sér en setti vissulega mjög skemmtilegan svip á myndina.

Ég skemmti mér ótrúlega vel á myndinni, Woody Harrelson sem lék Tallahassee var æðislegur að mínu mati. Náði þessari týpu ótrúlega vel.
Ég varð reynar örlítið klökk þegar ég áttaði mig á því að hundurinn (sem hafði gert hann að kjánalega hardcore gæja) hafði verið líking fyrir son hans sem hafði týnst í uppvakningaárásunum.
Samt ekki þannig klökk að ég færi að gráta. Meira svona awwwwwwwww... Dæmi.
Svo gleymdist það fljótlega og ég fór að hlæja yfir einhverju.

Atriðið með Bill Murray var náttúrulega bara snilld. Samt ótrúlega fyrirsjáanlegt það sem gerðist þegar hann ætlaði að hræða lúðann okkar með því að fara inn í bíósalinn í Zombie búningnum.

Annars þá fannst mér eitt kjánalegt við handritið. Ég geri mér grein fyrir, enda kom það fram í myndinni, að systurnar vildu bara treysta á hvor aðra og það allt. En ég persónulega hefði haldið að það væri betra - og heilbrigðara - fyrir þau öll að reyna að halda hópinn.
Þessvegna fannst mér fáránlegt af þeim að vera alltaf að stinga af.
Ef ég væri ein af tveimur kvenmönnum sem eftir væru án þess að vera uppvakningar, þá mundi ég frekar vilja halda mig með fleira fólki en færra.
- En jújú þær vildu bara hafa hvor aðra, ætli ég verði ekki að virða það.

Annars fannst mér þessi mynd bara ótrúlega góð, samt ekki það góð að ég fengi svona "ég verð að horfa á hana strax aftur!" - held nefnilega að hún gæti verið svona mynd sem er góð við fyrsta áhorf og svo bara svona ehh..hehehe æ já þetta atriði..
En ég veit það væntanlega ekki fyrr en ég sé hana.
Tökurnar fannst mér oftast bara nokkuð góðar, mjög oft bjóst ég eiginlega alltaf við að sjá e-a uppvakninga stökkva inn á skjáinn. Fannst líka gaman að fylgjast með þeim keyra á vegum með fullt af drasli á, hefur eflaust verið gaman að leika sér að keyra yfir það allt.

-Semsagt.
Þessi mynd er snilld. Ég ætla samt að gefa henni smá tíma áður en ég horfi á hana aftur. Fullt af smáatriðum sem fengu mig til að hlæja ótrúlega. Eins og þegar Columbus (Jesse Eisenberg) er að lýsa hvernig þetta hófst og það kemur atriði með litlum stelpum í prinsessukjólum sem stökkva aftan á bílinn hjá konunni sem er að reyna að flýja, guð minn góður hvað ég hló.
Hló reyndar líka - ásamt því að vera sjúklega hrædd, þó ég hræðist þá sjaldan, - þegar trúðurinn kom.
Columbus: Fuck this clown.
*splatter*

Myndin inniheldur annars fullt af gullkornum, þarf að skemmta mér við það einhvern tímann að skoða quote-in því línurnar voru gjarnan stórgóðar í þessari mynd.

Ástæður uppvakninganna meika líka alveg sens. Þetta er semsagt sjúkdómur. Eitthvað sem kemur fyrir heilann. Það er gott. Svo oft nefnilega sem það týnist í svona myndum og þá er maður allan tímann að einblína á það "afhverju í andskotanum eru þau samt uppvakningar?!?!?" - sem mig minnir að ég hafi hugsað á I am Legend... en það er langt síðan ég sá hana svo ég er ekki alveg viss.

Allavega.
Mæli með henni,
takk fyrir mig.

Thursday, November 12, 2009

Casablanca


Í gær horfðum við á Casablanca. Áður en við sáum þessa mynd þá var ég farin að hafa áhyggjur af því að ég væri eitthvað gamalla-kvikmynda-óhæf því ég hef lítið fundið mig við gláp á hinum myndunum sem voru svona "gamlar-klassískar."

Annað kom þó á daginn í þessari.
Casablanca hélt mér við skjáinn allan tímann. Hvort það var ómótstæðileg fegurð Ingrid Bergman, gæðaleikur frá Humphrey Boghart eða ótrúlega fallega sviðsmyndin. Ég veit það ekki, ég veit bara að ég sat og glápti og allan tímann var þessi "vá" factor hangandi yfir mér.

Myndin kom út árið 1942 og var birtingu hennar flýtt til þess að njóta góðs af innrás Bandamanna inn í Norður Afríku, enda gerist hún í Casablanca, Marokkó. Hún fjallar um mann, leikinn af Humphrey Boghart, sem rekur bar þar sem auk þess eru spiluð áhættuspil. Hann er voðalega svalur á því alltaf en svo komumst við að því að hann var ástfanginn í byrjun stríðsins en fór frá París vegna innrás nasista og hún, sem ætlaði að fara með honum, varð eftir. Síðan, auðvitað, kemur hún til Casablanca ásamt eiginmanni sínum og aðalpersónan okkar verður að velja milli þess að hjálpa þeim eða ekki.

En auðvitað vil ég ekki kjafta frá neinu, mér finnst söguþráðurinn í þessari mynd mjög góður, raunverulegur og hann höfðar til mín, sem áhugamanneskju um seinni heimstyrjöldina.
Eitt sem ég elska við myndina, og er auðvitað óhjákvæmilegt miðað við að hún er tekin upp 1942, er að hún er svarthvít. Ef mér stæði það til boða að sjá hana í lit þá mundi ég ekki vilja það. Fyrir mér var það að horfa á þessa mynd eins og að horfa á listaverk, leikmyndin var öll rosalega falleg og þó að sumt hafi verið örlítið gervilegt þá fór það ekkert í taugarnar á mér, það var bara allt annað svo flott við hana.

Eitt sem mér fannst mjög gaman var að sjá atriðin sem voru á markaðnum, fékk alveg
Marmaris-flash-back, söluaðferðir á svona stöðum virðast vera óbreyttar milli tíma og landa. Þessi mynd hafði líka þau áhrif á mig að ég fór og las næstum alla wikipediagreinina um hana, en það eru bara myndir sem hafa virkileg áhrif á mig sem fá mig til að gera það.

Í heildina get ég sagt að ég hafi notið myndarinnar, fannst tökurnar fallegar, handritið meika sens og leikararnir standa sig vel.
Það er ekkert skrítið að þessi mynd sé talin ein af þeim bestu, fyrir mér er hún núna ein af þeim bestu og á ágætis möguleika á að vera inná Topp 10 lista hjá mér, ef ég geri hann einhvern tímann.

Takk fyrir mig!

Tuesday, November 10, 2009

Handritagláp

Einhvern tímann fyrir löngu var okkur sett það verkefni að lesa handrit og horfa á bíómynd. Helst einhverja sem við höfðum ekki séð áður. Vegna þess hversu ótrúlega mikill uppreisnarseggur og bóhemisti ég er þá ákvað ég að horfa á mynd sem ég hef séð áður (samt langt síðan síðast) og heitir því nafni er á íslensku mundi útleggjast Myllan Rauða.

Ég tók strax eftir ýmsu við lestur handritsins sem ég hafði aldrei pælt í áður. Um það ætla ég að nefna fyrst að í upphafi myndarinnar sjáum við svið, fyrir framan tjöldin stendur maður. Honum hafði ég aldrei tekið eftir áður. Tjöldin lyftast og við sjáum Twentieth Century Fox logoið ásamt því að lagið kemur og á sama tíma hreyfir maðurinn sig eins og hann sé að stjórna hljómsveit sem er að spila lagið. Þessu tók ég eftir í fyrsta skipti núna áðan vegna þess að ég las það í handritinu. Það breytist síðan í Moulin Rouge logoið og sambland af tónlist úr myndinni og áfram stendur þessi maður og stjórnar tónlistinni.

Svo kemur smá kynning á bohemísku umhverfi Parísar sem gerist mjög hratt og því var gaman að hafa lesið nákvæma lýsingu á þessu í handritinu og þ.a.l. tók ég betur eftir smáatriðum. Finnst öll þessháttar umgjörð myndarinnar mjög flott, þ.e. umhverfið í París árið 1900 er tölvuteiknað að hluta en samt einhvern veginn þannig að það fer ekki í taugarnar á mér.
Það er svo stútfullt af smáatriðum sem fara svo hratt framhjá að það eina sem maður hugsar er
vá.

Á meðan á þessari kynningu stendur er Toulouse-Lautrec, sem við sjáum síðar í myndinni, að syngja lag. Málið er að hann sést í byrjun Parísar-kynningarinnar en ég tók að sjálfsögðu ekki eftir því fyrr en eftir að ég las handritið og þó ég hefði séð hann án þess að h
afa lesið handritið hefði ég ekki fattað að þetta ætti að vera persónan Toulouse-Lautrec. Montmarte hverfið sem sagan gerist í er afar hrörlegt í þessu atriði og myllan rauða stendur yfirgefin.



Þetta þótti mér afar áhugavert. Ég las aðeins handritið upp að því marki þegar allir fara að syngja og dansa og þá var aðallega eitt atriði sem ég pældi mikið í. Atriðið alveg í byrjun þegar Ewan McGregor situr gráti nær á gólfinu í íbúð sinni.

Hann túlkar tilfinningarnar mjög vel, það sem kemur fram í einni setningu "about to cry" í handritnu er ákaflega stór hluti senunnar. Ef hann hefði ekki leikið þetta vel, þá væri hún ónýt. Blessunarlega fyrir okkur öll þá leikur hann þetta stórvel.


Í byrjun er allt í frekar brúnleitt, eins og gamlar ljósmyndir, en einstaka litur eins og rauður fær að skína í gegn. Ég túlkaði það þannig að rauður væri litur ástarinnar og þessvegna væri hann sýndur. Síðan koma litirnir inn allt í einu, en samt ekki á svo áberandi hátt að maður taki eftir því.

Ég elska líka hvernig myndatakan í atriðinu þegar hann er í herberginu sínu í upphafi myndar, eftir að hún deyr.
Ritvélin hans kemur allt í einu í nærmynd, eftir að hann er sýndur sitja upp við vegg, og allt annað úr fókus, einnig hann sem situr í horninu.
Myndavélin hallar og
mögulega er verið að gefa í skyn áhrifin sem hann er undir, mjög líklega sorg blönduð víni. Myrkrið í herberginu sýnir vel hversu illa honum líður, enda gerist þetta atvik eftir að hún deyr, gellan þarna sem hann elskar, Satine.

Á einum tímapunkti er næstum allt mjög dimmt í herberginu fyrir utan kerti í horninu og daufa birtu sem skín inn um gluggann. Við horfum ofan á þetta allt. Hann stendur fyrir framan ritvélina. Þetta skot fannst mér ótrúlega fallegt. Fann því miður enga betri mynd

Síðan kom skemmtilegt atriði þar sem sýnt var hvernig hann kom til Parísar, myndin sem dregin er upp af Montmarte í því atriði er mun glaðlegri en í byrjun myndarinnar, á meðan Toulouse er að syngja og
endurspeglar það bjartsýni hans þegar hann kemur til Parisar en niðurdregna, þunglynda myndin af Montmarte endurspeglar líðan hans eftir að Satine deyr.
Eftir það dettur síðan Argentínumaður niður um loftið hjá honum, mjög fyndin sena og svo kemur aðal kynningin á Moulin Rouge.


Allir dansararnir, litadýrðin, tónlistin...
Mikið er lagt upp úr því að hafa það sem er utandyra grátt og leiðinlegt og fyrir innan, í rauðu myllunni þar sem ríkir eilíf gleði og nautn, er allt í skærum, skrautlegum litum.


Ég nennti ekki að horfa á alla myndina í þetta sinn, þó mér finnist hún góð. Svo þetta mat mitt á byrjun hennar út frá handritinu verður að duga í kvöld. Kannski maður ætti að lesa handrit oftar, svona til að sjá smáatriðin betur.

merci beaucoup,
Miriam


Var með nokkrar myndir sem hurfu allt í einu, hef ekki tíma til að laga þetta núna, geri það sem fyrst.

Saturday, October 31, 2009

Aukapakki

Svona í tilefni þess að það er sunnudagur og að ég eyddi allri helginni minni í að lesa Íslandssögu 19. aldar þá ætla ég að blogga um þátt.
Já ég sagði það,
þátt sem ég sá, á Norske Radio 1.

Það má, right?

Annars er þetta bara gaman.
Ég sat semsagt og fletti milli stöðva á miðvikudagskvöldi og lét mér leiðast þegar ég lenti allt í einu á raunveruleikaþættinum Undercover Princes. Ó já, það er eins gott og það hljómar.


Hann fjallar um þrjá prinsa, frá sitthvoru ríkinu, sem vantar maka. Þeir eru sendir til Brighton þar sem þeir búa saman og hafa 6 vikur (held ég) til þess að finna einhvern sem þeir gætu hugsað sér að bjóða með sér heim í ríki sitt og kannski að lokum giftast. En þeir eru í "dulargervi" sem venjulegir menn og mega ekki tilkynna neinum að þeir séu prinsar fyrr en síðasta daginn.

Einn þeirra er frá Zulu ríki í Afríku og heitir því einfalda og skemmtilega nafni Africa Zulu. Hann er voða einfaldur og hefur sterkar skoðanir um það hvernig allt á að vera.
,,A woman should be beautiful. Personality doesn't matter very much, we can always work on that later." (með svona afrískum hreim)
Hann átti einnig æðislegt móment þar sem þeir félagar fóru að sjá hundakapphlaup og hann var stórhneykslaður á því að hundarnir fengu engin laun fyrir að sigra.
,,But the dogs, they do not get any money?
Why is this?"


Síðan er prins númer tvö. Remigius Kanagaraja frá Sri Lanka. Hans vandamál er að konan sem hann deitar bara bókstaflega verður að vera of aristocratic stock. Hann hljómar voðalega kvenlega og er algjör pempía en þó, ekki eins slæmur og prins númer þrjú....

Nefnilega prins Manvendra Singh Gohil úr ríkinu Rajpipla á Indlandi. Og hann er nefnilega samkynhneigður. Já, eini erfingi hins 600 ára gamla konungsdæmis Rajpipla á Indlandi er samkynhneigður. Og hann er í Brighton til að finna sér maka. Í einum þættinum þá dettur honum reyndar í hug að hann gæti verið tvíkynhneigður þar sem hann hafi heldur aldrei verið með konu. Svo hann ákveður að reyna að vera karlmannlegur og prófa. Africa reynir að kenna honum karlmennskutakta en það rennur allt út í sandinn. Líka mjög áhugavert að sjá hann horfa á klám.
Gæti þetta verið betra.

Þættirnir fylgjast með daglegu lífi þeirra, þegar þeir fara að versla, þegar þeir elda saman, þegar þeir rífast, grínast og fara á stefnumót með mismunandi konum (og körlum). Allt er þetta góð skemmtun og raunveruleikaþáttur eins og þeir gerast bestir.

Kem kannski með uppfærslu á þessum skemmtilegu herbergisfélögum eftir að ég sé hvernig þetta endar!

Annars þá er ekki annað hægt en að benda á þessa stórskemmtilegu síðu.




Takk fyrir mig!

Friday, October 30, 2009

The Ugly Truth

Föstudagskvöld Airwaves hátíðarinnar hjá mér byrjaði á Off-Venue tónleikum hjá Dynamo Fog í Kaffistofunni á Hverfisgötu.
Síðan var ferðinni heitið í einhverja afslöppun til klukkan 10. Hinsvegar á leiðinni í strætó var gengið fram hjá Regnboganum og ákveðið að skella sér bara í bíó. Svona upp á flippið.

Óplönuð bíóferð, eftir tvo ótrúlega vonda Freyju-bjóra.
Ágætt.

Myndin sem varð fyrir valinu var The Ugly Truth. Langt síðan ég hef farið á stelpumynd í bíó.
Hún kom mér skemmtilega á óvart.

Ég fór gjörsamlega með úldnum hug á þessa mynd, bjóst ekki við neinu.
Hún byrjar ekkert svo voðalega spennandi, vinkona mín (sú sama og vildi ganga út af Daytime Drinking) vildi líka ganga út af þessari. En, við þraukuðum fyrsta korterið og þá hún var bara hin ágætasta skemmtun.

Eitt af því sem fór í taugarnar á mér var persónan Joy. Persóna eins og Joy virðist vera í tísku í svona stelpu myndum og sé ég varla tilganginn. Hún er þessi taugaóstyrka vinkona sem lifir á spennu í lífi aðalpersónunnar.
Flestar línur hennar kölluðu fram svona "ehhhh.. heh..heh..."
Semsagt alls ekki fyndnar.
Og það virðist vera sem næstum því sama leikkonan leiki þær alltaf því þær eru nánast eins í hverri einustu mynd. Allavega í minningunni eftir á.

Hinsvegar fannst mér Gerald Butler ágætur í myndinni, enda mjög heitur og örlítið hívaða-Miriam gæti hafa pælt meira í ágætum hans sem kjötstykkis en leik hans í myndinni sjálfri.

Eins, undarlega og það hljómar, sýnir myndin - að mínu mati - alveg ágætlega hvernig samskipti kynjanna eru gjarnan en, sem betur fer vita flestir betur en svo að trúa því að svona eigi þetta að vera. punktur.

Annað sem fór í taugarnar á mér var loftbelgsatriði í endann en þau eru svo ótrúlega augljóslega fyrir framan green screen að ég gat eiginlega ekki fylgst með því sem þau voru að segja heldur fylgdist ég frekar með contrastinu á milli gæðanna á fólkinu í loftbelgnum og gæðanna á bakgrunninum fyrir aftan. Sem var langt frá því að vera raunverulegt.

Annars,
eins mikið og ég er ekki mikill aðdáandi chick-flicks þá skemmti ég mér nokkuð vel á þessari mynd, ég hló alveg helling - sem er gott!
En alls ekkert meistaraverk er hún.

danke schön, bitte bitte
Miriam

Monday, October 19, 2009

Am I Black Enough For You?


Síðasta myndin sem ég sá á RIFF var myndin Am I Black Enough for You?
Ég valdi hana aðallega vegna titlsins, þarf ég að útskýra það eitthvað nánar...

Myndin er heimildarmynd um svarta tónlistarmanninn Billy Paul, sem ég hafði enga hugmynd um hver væri, líf hans, tónlistarferil en inn í þetta blandaðist jafnréttisbarátta svertingja í Bandaríkjunum.

Ég verð að segja að mér þótti þessi mynd mjög áhugaverð. Billy Paul er einn af þeim tónlistarmönnum sem átti mjög marga smelli á sínum tíma en hefur þó ekki grætt stórlega á þeim, en útgáfufyrirtækið sem gaf út lögin eftir hann seldi þau hans og græddu sjálfir á þeim án þess að hann hefði hugmynd um það. Og það sorglega við það að hann hafði litið á þessa menn sem vini sína. Hann kemur þó enn fram og á sinn aðdáendahóp sem virðist vera það stór að ég undra mig á því að hafa aldrei heyrt um hann áður.

Myndin er bæði sorgleg og fyndin í senn, hann talar um afa sinn og ömmu en amma hans varð að flýja með öll börnin eftir að Ku Klux Klan hengdi afann fyrir að "eiga of stórt land" en sá hluti myndarinnar var vægast sagt óhugnalegur.
En til að bæta upp fyrir þetta er Billy Paul mjög stríðinn og oft var sagt frá hlægilegum atburðum í lífi hans. Hann hefur einnig verið með sömu konunni í mörg ár og er hún umboðsmaðurinn hans í dag.

En ég ætla ekki að kjafta frá allri myndinni. Hún er vel tekin, yfirleitt á stöðum sem eru frekar venjulegir í lífi Billys. Eins og í bílnum með honum eða í sófanum heima hjá honum. Auk þess er rætt við fleiri tónlistarmenn sem hafa fengið innblástur frá honum, gamla vini sem og einn af þeim félögum hans sem áttu útgáfufyrirtækið.
Þó má þess geta að þeir virðast nú hafa lagt ágreiningsmál sín á hilluna.
Mæli eindregið með þessari mynd, sérstaklega fyrir aðdáendur soul tónlistar.

Ég fylgdist líka með Q&A eftir myndina, en hún er tekin upp af Svíum. Eitt sem mér fannst mjög, tja, krúttlegt, er að þegar Svíarnir reyndu að hafa samband við umboðsmenn Billys þá héldu þau að þetta væri eitthvað grín og þvertóku fyrir það að leyfa þeim að taka upp mynd. En þau héldu áfram að hringja þangað til að Billy og hans fólk gáfust upp og úr varð þessi áhugaverða mynd.



Monday, October 12, 2009

Daytime Drinking

Biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað fyrr um seinni tvær myndirnar sem ég sá á Riff, en vegna persónulegra ástæðna hef ég ekki getað komið mér að því að blogga sem ég ætla þó að gera núna.

Ég skellti mér á Day Time Drinking eitt föstudagseftirmiðdegi á Riff með vinkonu minni. Ég vildi frekar fara á aðra mynd sem var í boði á þeim tíma en henni fannst Day Time Drinking hljóma áhugaverðari.

Allt í lagi, við fórum á hana.
Vinkona mín var síðan sú sem byrjaði að suða í mér eftir hálftíma hvort við gætum farið af henni.

Myndin var óhemju löng, ótrúlega langt var á milli fyndna atriða og var aðdragandi þeirra oft svo langur að þegar punchline-ið kom þá var maður orðinn svo þreyttur á því að bíða að það fór gjörsamlega framhjá manni.

Las síðan í dagskránni að þetta væri frumraun leikstjórans sem samdi auk þess handritið og alla tónlistina í myndinni, hann hefur kannski ekki átt svona fína klippitölvu eins og við (sem ég á enn eftir að prófa nota bene) því ég er ekki frá því að myndin hefði mögulega getað verið hin ágætasta skemmtun ef hún hefði verið styttri og betur klippt.

En, hann fær þó stig að vera að gera mynd um dagdrykkju í Norður Kóreu. Ekki eins og maður hafi eitthvað búist við því að sjá myndir þaðan, hvað þá um drykkfeldan ungan mann sem lendir í allskonar rugli. Og þá erum við að tala um aaalllskooonar rugl, einkar óheppinn ungur maður þessi strákur, aðalpersónan. Kómískt oft á tíðum.

En þessi mynd, var því miður of langdregin til að vera skemmtileg, ef ég fengi að læsa mínum klippiklóm í hana þá gæti ég eflaust lagað hana til, og samt er ég nákvæmlega enginn meistari í því!

Saturday, September 26, 2009

Bi The Way

Á mánudaginn fór ég svo aftur í bíó og sá hina stórgóðu heimildarmynd Bi The Way. Hún fjallar um tvíkynhneigð og er orðaleikur titilsins skemmtilegur.
Myndin er í raun ferðalag tveggja ungra stúlkna í gegnum Bandaríkin þar sem þær taka upp viðtöl við fólk sem þau kynnast á leiðinni. Það fer varla framhjá neinum að þær hafa tekið upp gífurlegt magn af efni því þær hafa valið bestu bútana úr og úr því varð þessi stórgóða heimildarmynd.

Áhugaverðasta persóna myndarinnar var litli strákurinn Josh sem átti tvíkynhneigða móður og samkynhneigðan föður, en aðeins 11 ára gamall var hann farinn að pæla í hlutum sem börn á hans aldri hugsa sjaldnast um.
Einn daginn ætlaði hann að vera klæðskiptingur, annan daginn hafði hann áhyggjur af því hvort hárið á honum væri nógu fínt, annan daginn ætlaði hann að vera hommi eins og pabbi hans en stundum var hann ekki alveg viss. En foreldrar hans voru duglegir að segja honum að vera bara hann sjálfur, sem mér þótti frábært.

Aðrar persónur koma við sögu og við fáum innsýn í líf þeirra eins og til dæmis stúlkan hún Pam sem var einungis 16 ára en virtist hafa upplifað svo margt. Faðir hennar var alls ekki sáttur við kynhneigð hennar en mamma hennar, sem bjó á móteli, vildi bara að hún væri hún sjálf.

Auk þess var skyggnst inn í líf fleira fólks en ég ætla ekki eyða meiri tíma í að tala um það.
Myndin er vel tekin og eru landslagsmyndir á ferðalagi þeirra gjarnan sýndar sem gefa myndinni notalegan blæ og maður finnur fyrir því að þetta var ferðalag í gegnum öll Bandaríkin. Auk þess stoppa þær inn á milli til að spurja vegfarendur um skoðun þeirra á tvíkynhneigð, sem er áberandi neikvæð í suðurríkjunum en svo er fólk sem kemur manni á óvart inn á milli. Maður sem leit út fyrir að vera þessi tíbíski "red-neck", tannlaus og rauður, sem sagði bara að við ættum öll að geta elskað þann sem við vildum elska. Ég veit að ég dæmdi hann allavega fyrirfram.

Sem er náttúrulega eitthvað sem maður á ekki að gera, en ég vil meina að ef ég hefði farið á myndina með fordóma í garð tvíkynhneigðar eða samkynhneigðar sem myndin fjallar að sjálfsögðu örlítið um, þá hefði hún örugglega orðið til þess að fordómar mínir hefðu minnkað.
En þar sem ég tel mig vera nokkuð fordómalausa gagnvart kynhneigðum manna þá var myndin aðallega skemmtileg heimildarmynd fyrir mig, mjög góð skemmtun og auk þess er hún ótrúlega fyndin í þokkabót.

Held að ég hafi aldrei hlegið jafn mikið á heimildarmynd.
Takk fyrir mig.