Saturday, August 22, 2009

Topp-listinn minn

Byrjun vetrar í kvikmyndafræði felur í sér að ég þarf að þvinga fram einhvern topp lista af mínum uppáhalds bíómyndum. Þetta krefst gífurlegrar umhugsunar þar sem topplistinn á það til að breytast. Oft.

En, eins og árferðið er núna þá er þetta topp listinn minn:
  1. Lackawanna Blues
  2. Monty Python; The Holy Grail
  3. Sódóma Reykjavík
  4. Shawshank Redemption
  5. Head in the Clouds
  6. Lord of the Rings
  7. Kátir Kettlingar
Stutt umfjöllun um þessar myndir fylgir svo hér:

Lackawanna Blues er mynd sem ég sá fyrst á bíórásinni. Greip mig strax og ég festist við skjáinn. Ekki að hún hafi einhvern spennandi bangbang söguþráð í sjálfu sér, heldur hefur hún þennan factor sem heillar mann. Hún fjallar um uppvaxtarár Rubens, sem er ungur svartur strákur sem er alinn upp af fóstru sinni, Nanny. Hún gerist í kringum 1960 í Lackawanna, New York. Fær maður að kynnast lífi blökkumanna á þeim tíma (og þau eru svo svöl að maður bölvar því að hafa ekki fæðst svartur) og hvernig undirokaður kynþátturinn skemmtir sér sjálfur - án hvíta mannsins. Tónlistin passar algjörlega inn í andrúmsloftið og myndin heitir ekki Lackawanna Blues fyrir ekki neitt. Eftir að hafa horft á þessa mynd sit ég alltaf og brosi, hugsa um líf fólks á þessum tíma og gleðst. Og öfunda þau fyrir að vera svört og svöl.

Monty Python; The Holy Grail. Í mínum augum er þessi mynd ein af aðaláhrifavöldum þess húmors sem fylgir mér í dag. Það að nota það sem maður hefur, eins og kókoshnetur, getur verið mun betri og skemmtilegri lausn en að eyða miklum pening í alvöru útbúnað (hesta t.d.). Þessi mynd sannar fyrir mér, persónulega, að það þarf ekki stóran bunka af seðlum til að gera vinsæla bíómynd. Maður þarf bara gleði til að skapa, vilja til að vinna við hundleiðinlegar og blautar aðstæður á Englandi og húmor. Ég hlæ alltaf. Og ef ég horfi á hinar 3 líka, Meaning of Life, Life of Brian og Now For Something Completely Diffirent á ég það til að engjast um af hlátri og enda síðan svo rugluð í hausnum að mér líður eins og ég sé á einhverju.

Sódóma Reykjavík (e. Remote Control). Mynd sem allir Íslendingar eiga að þekkja og þessvegna ætla ég ekki að tala neitt um söguþráðinn.
Eitt af því skemmtilega við myndina er að sjá hversu hratt Reykjavík hefur breyst frá þessum tíma og auðvitað að fá að kynnast skemmtanalífi Reykjavíkur á síðasta áratug 20.aldar. Sem miðað við þessa mynd var ansi svæsið og skrautlegt. Og svo auðvitað flytur hún ágætis boðskap, maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. Og hver hatar ekki að sjá miðaldra konu fljóta niður Elliðaárnar á dýnu í bát. Ég elska það. Uppáhalds atriðið mitt. Ever.

The Shawshank Redemption er mynd sem ég sá fyrst klukkan hálf 5 að nóttu til. Hún verður bara betri með hverju skiptinu sem ég sé hana. Hún fjallar um fangelsaðan mann sem með margra ára von og þolinmæði, vinskap milli hans og annars fanga, tekst að flýja úr fangelsi og hefja líf sitt að nýju. Fjarri öllu öðru. Ein af þessum myndum sem boðar að þolinmæðin þrautin vinnur allar og er spennandi, falleg og fyndin í senn. Hún gerist líka á þeim tíma í sögunni sem mér finnst einna mest heillandi, fyrri hluti, miðbik 20. aldar.

Head in the Clouds er mynd sem ég rak fyrst augun í á Rúv. Já, Rúv á það til að gera góða hluti. Hún gerist einnig á tímum seinni heimstyrjaldarinnar, hefst reyndar í kringum 1930. Frekar rómantísk, jafnframt sorgleg og vel gerð mynd. Það sem heillar mig mest við hana er þó að hún er ekki þessi tíbíska Hollywood mynd þar sem allir í heiminum tala ensku. Frakkar tala frönsku, Spánverjar spænsku og þeir sem ferðast á milli landa verða að gjöra svo vel að tala tungumál landsins sem þeir eru í (eða fá sér túlk). Gleður mig alltaf jafn mikið að sjá aðalpersónuna Guy Malyon (Stuart Townsend) tala frönsku. Ekki oft sem það gerist.

Lord of the Rings. Set þær hér líka. Bara allar. Mér finnst þær ná því nokkuð vel að flytja okkur inn í heiminn sem J.R.R. Tolkien skapaði og af einhverjum ástæðum horfi ég á þessar myndir og óska þess að þessi heimur væri til í alvöru. Sem þýðir að þessar myndir hljóta að vera vel gerðar. Eins langar og þær eru þá hata ég ekki að horfa á þær allar í röð. Helst með popp og kók með mér samt. Held að ég verði þó að viðurkenna að mér finnst næstum því jafn áhugavert að horfa á gerð myndnna og mistök í upptökum og myndirnar sjálfar.

Að lokum. Já. Kjánalegt. Kátir Kettlingar. Það er mynd sem barnæsku-Miriam elskaði. 40 mínútur af litlum kettlingum leika sér. Enginn söguþráður, en fyrir lítinn krakka með kattaofnæmi var þetta himnaríki á VHS spólu. Rakst á hana um daginn, ennþá jafn krúttlegt að horfa á og sannar að myndir þurfa ekkert að vera flóknar til þess að skemmta. Þær þurfa bara að innihalda eitthvað. Og í þessu tilfelli voru það kettlingar. Mjá.