Monday, October 19, 2009

Am I Black Enough For You?


Síðasta myndin sem ég sá á RIFF var myndin Am I Black Enough for You?
Ég valdi hana aðallega vegna titlsins, þarf ég að útskýra það eitthvað nánar...

Myndin er heimildarmynd um svarta tónlistarmanninn Billy Paul, sem ég hafði enga hugmynd um hver væri, líf hans, tónlistarferil en inn í þetta blandaðist jafnréttisbarátta svertingja í Bandaríkjunum.

Ég verð að segja að mér þótti þessi mynd mjög áhugaverð. Billy Paul er einn af þeim tónlistarmönnum sem átti mjög marga smelli á sínum tíma en hefur þó ekki grætt stórlega á þeim, en útgáfufyrirtækið sem gaf út lögin eftir hann seldi þau hans og græddu sjálfir á þeim án þess að hann hefði hugmynd um það. Og það sorglega við það að hann hafði litið á þessa menn sem vini sína. Hann kemur þó enn fram og á sinn aðdáendahóp sem virðist vera það stór að ég undra mig á því að hafa aldrei heyrt um hann áður.

Myndin er bæði sorgleg og fyndin í senn, hann talar um afa sinn og ömmu en amma hans varð að flýja með öll börnin eftir að Ku Klux Klan hengdi afann fyrir að "eiga of stórt land" en sá hluti myndarinnar var vægast sagt óhugnalegur.
En til að bæta upp fyrir þetta er Billy Paul mjög stríðinn og oft var sagt frá hlægilegum atburðum í lífi hans. Hann hefur einnig verið með sömu konunni í mörg ár og er hún umboðsmaðurinn hans í dag.

En ég ætla ekki að kjafta frá allri myndinni. Hún er vel tekin, yfirleitt á stöðum sem eru frekar venjulegir í lífi Billys. Eins og í bílnum með honum eða í sófanum heima hjá honum. Auk þess er rætt við fleiri tónlistarmenn sem hafa fengið innblástur frá honum, gamla vini sem og einn af þeim félögum hans sem áttu útgáfufyrirtækið.
Þó má þess geta að þeir virðast nú hafa lagt ágreiningsmál sín á hilluna.
Mæli eindregið með þessari mynd, sérstaklega fyrir aðdáendur soul tónlistar.

Ég fylgdist líka með Q&A eftir myndina, en hún er tekin upp af Svíum. Eitt sem mér fannst mjög, tja, krúttlegt, er að þegar Svíarnir reyndu að hafa samband við umboðsmenn Billys þá héldu þau að þetta væri eitthvað grín og þvertóku fyrir það að leyfa þeim að taka upp mynd. En þau héldu áfram að hringja þangað til að Billy og hans fólk gáfust upp og úr varð þessi áhugaverða mynd.



1 comment: