Saturday, February 27, 2010

Léon, the Professional


Rólegt föstudagskvöld eftir fáránlega brútal viku og myndin sem varð fyrir valinu var myndin Léon, The Professional.
Hafði aldrei heyrt um þessa mynd, viðurkenni það - skömmustuleg, og var því algjörlega ómeðvituð um hvað hún snerist.

Hún er semsagt um hinn ítalska Léon (Jean Reno - einn af mínum uppáhalds) sem er leigumorðingi og er fáránlega fær í því sem hann gerir. Líf hans er vanafast og er endalaus rútína aftur og aftur. Hann sefur alltaf sitjandi, með annað augað opið og drekkur bara mjólk. Sjúklega harður gæji. Og svo er hann alltaf með svona John Lennon-gleraugu. Snilld.

EN síðan einn daginn bjargar hann lífi stúlkunnar Mathildu (Natalie Portman - myndin sem kom henni á stjörnuhimininn) sem býr í blokkinni og eftir það verður ekki aftur snúið. Hann kennir henni, að hennar eigin ósk, að verða leigumorðingi þar sem hún vill hefna fyrir dauða litla bróður síns.
Myndin er sjúklega spennandi, hjartnæm og átakanleg í senn og ekki skrítið að hún sé nr. 34 af topp 250 myndunum á imdb.com

Samband Léon og Mathilda er örlítið skrítið þar sem hún segist vera 18 ára þegar hún er í rauninni 12 ára og heldur því fram að hún elski Léon, sem hefur ekki elskað neina manneskju síðan hann var 18 ára sjálfur. Þau eru því bæði hálfbrenglaðir karakterar og kannski þessvegna sem þau finna huggun í hvoru öðru.

Leikurinn í myndinni er stórgóður og Léon virðist vera ultimate glæpamaður miðað við hversu lúmskur hann er. Eitt sem ég fattaði mjög seint var að "vondi kallinn" í myndinni er í rauninni, spillt lögga. Þ.e. hann stundar eiturlyfjaviðskipti en er í rauninni með allan lögregluflotann undir sinni stjórn ef hann þarf á honum að halda.

En ég er mjög ánægð með að hafa séð þessa mynd, fannst hún alveg frábær.
Mæli eindregið með henni,
stórgóð!

-Miriam

Friday, February 26, 2010

Man Bites Dog

Á miðvikudeginum fyrir tveim vikum varð siðferðiskennd mín fyrir sjokki. Verulegu sjokki. Við horfðum á myndina Man Bites Dog.

Hún er mockumentary frá Belgíu sem var framleidd af nokkrum kvikmyndagerðarnemum á mjög litlu budget-i.


Hún á semsagt að vera um það að hópur kvikmyndagerðarmanna er að taka upp heimildamynd um mann sem heitir Benoît Poelvoorde og virðist við fyrstu sýn vera ósköp venjulegur maður sem kynnir heimildamyndarmönnunum fyrir fjölskyldu sinni, sem hann á í góðu sambandi við.

En það sem við fáum síðan að vita er að Benoît er gjörsamlega siðblindur morðingi sem drepur fólk sér til skemmtunar og til þess að græða á því pening.
Fyrst var maður svona... haha.. vá hvað þetta er kaldhæðin mynd.

Og í svona fyrstu tökunum þar sem hann er að henda niður líkunum ofan af kletti og í eitthvað vatn þá var ég eitthvað flissandi.
En það hætti þegar á leið þar sem myndin varð grófari og grófari og það eina sem ég hugsaði var "hvað í andskotanum er ég að horfa á?"

Sum atriðin voru svo gróf að litla sálin hún Miriam gat ekki einu sinni fengið sig til þess að horfa á þau.
Sérstaklega atriðið þar sem þeir voru að nauðga konunni, maður hefur nú séð sitthvað ógeðslegt um ævina, en þetta átti ég erfitt með að horfa á. Get fullyrt að við fórum öll út úr stofunni eftir myndina með andlitin steinrunnin.

Shit.

Þessi mynd er augljóslega gerð til þess að hneyksla fólk og koma því í opna skjöldu og... það tókst eiginlega of vel. Er ennþá í sjokki yfir myndinni. En á undarlegan hátt finnst mér þó eins og ég sé örlítið svona, meðvitaðri um eitthvað sem ég veit ekki alveg hvað er, eftir að hafa horft á hana.

Kannski það að þetta er ógeðslega sick heimur sem við búum í og maður veit greinilega ekkert hvað er að gerast í hausnum á næsta manni.

Hún heitir líka á frönsku
C'est arrivé près de chez vous sem þýðir "það gerðist nálægt þér" - sem er frekar ógnvekjandi, miðað við hversu sick mynd þetta er. Ég get samt sagt að ég hafi verið heilluð á því hvað þetta var allt raunverulegt. Á tímabili var ég svo dottin inn í myndina að ég trúði bara að þetta væri bara alvöru heimildarmynd um alvöru siðblindan mann. Sem er hræðilega scary. Fannst líka smá erfitt að horfa á hvað honum sjálfum fannst þetta eðlilegt. Þetta var bara það sem hann gerði, gaman að drepa póstmenn, gamalt fólk er auðveldara skotmark. Voða eðlilegt. Voða ógnvekjandi.

Þessvegna verð ég eiginlega að mæla með þessari mynd við alla þá sem ég þekki og eru ekki viðkvæmir og hafa annars áhuga á bíómyndum.

-Miriam

Thursday, February 4, 2010

anne frank, the whole story


Um daginn var ég heima hjá mér veik og vafraði um netið eins og gjarnan er gert þegar maður liggur upp í rúmi með fartölvu allan daginn.

Á sunnudegi nokkrum rakst ég á mynd sem er öll inni á youtube, þriggja klukkustunda löng í 19 hlutum.
Hvaða mynd? Mynd sem ég hafði aldrei heyrt um áður þó að sagan væri mér mjög kunn.

Nefnilega myndin
Anne Frank, The Whole Story. Hún er ekki byggð á dagbókarskrifum stúlkunnar Anne Frank sem eru heimsfræg heldur ævisögu hennar sem kom út á síðasta áratug 20.aldar eftir Melissu Müller. En Melissa þessi notaði dagbókina og aðrar upplýsingar um líf Anne til þess að fylla í eyðurnar.

Ég hef alltaf verið heilluð af sögu Anne Frank, hef lesið mér til um hana ótrúlega oft - þó ekki lesið dagbókina sjálfa. Veit ekki hvort ég legg í hana.
Og þessvegna ákvað ég að horfa á þriggja tíma langa mynd á youtube.

Mér þykir þessi mynd alveg frábær, það er allt ótrúlega vel gert.
Það eina sem ég hef út á hana að setja er að það fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér að sjá fólk sem á ekki að vera enskumælandi tala ensku. Fullt af SS-liðum sem töluðu ensku með þýskum hreim, nema ef þeir voru að tala sín á milli eitthvað sem var ekkert voðalega merkilegt en maður áttaði sig á því að þeir voru reiðir og að tala um gyðinga - það var á þýsku.

Tungumálafríkið Miriam lét þetta fara smá í taugarnar á sér. Annars, vóg svo margt annað upp á móti að ég get ekki verið að láta þetta fara of mikið í taugarnar á mér. Myndin á það ekki skilið, sérstaklega þar sem það eru mörg önnur tungumál töluð en aðallega enska, í aðstæðum sem enska ætti ekki að vera töluð. En, ég veit ég veit, markaðshópurinn. Jájá.

En í myndinni er fjallað um sögu Anne og fjölskyldu hennar, fyrir stríð og á meðan þau eru í felum. Vissulega er giskað í einhverjar eyður en að öðru leyti virðist mikið af því sem gerist í myndinni vera sögulega rétt.

Eitt sem mér þótti vissulega frábært við myndina var hversu Hannah Taylor-Gordon, sem lék Anne, er ótrúlega lík henni og mér fannst ég á tímabili (þegar ég virkilega datt inn í myndina) eins og ég væri bara að horfa á alvöru Anne.

Og hún var ekki sú eina sem var lík þeirri persónu sem hún lék; Ben Kingsley fer frábærlega með hlutverk Otto Frank, föður Anne og smellpassar í hlutverkið bæði sem leikari og útlitslega séð. Væntanlega verið valið með tilliti til þess.


Það sem ég á við er að leikurinn er ótrúlega góður og leikararnir trúverðugir í sínum hlutverkum.


Annað sem vert er að minnast á eru útrýmingarbúðirnar og það allt í myndinni, er ótrúlega vel gert. Förðunin, fötin og leikmyndin er fyrsta flokks og greinilegt að mikið hefur verið lagt í hana. Enda væri það algjör synd ef þessi mynd væri á einhvern hátt léleg.


Veit þó ekki hvort ég muni horfa á hana aftur í bráð því ég veit að ég mundi bara grenja ennþá meira í annað skiptið. Ætla að láta trailerinn fylgja með fyrir áhugasama.




Svo er sennilega vert að minnast á að myndin hefur hlotið og verið tilnefnd til margra verðlauna.

Tuesday, February 2, 2010

Le Petit Nicolas



Í síðustu viku gerði ég þriðju og síðustu tilraunina til að sjá Petit Nicolas í bíó. Hafði reynt tvisvar áður og í bæði skiptin var uppselt. Mætti frekar snemma og keypti mér miða og popp og...pepsi. Af því að Háskólabíó er ekki með kók.

Held að það sé vegna þess að pepsi og popp stuðlar betur en popp og kók. En það er misskilningur þeirra í Háskólabíó að það sé kúl. Það vita allir að tvennan er popp og kók - eða ekkert.

Við höfðum verið látin lesa smá búta úr sögunum um Lása litla í frönsku og fundust mér þær skemmtilegar - upp að því marki sem ég skildi allavega.

Myndin Petit Nicolas er hreint út sagt frábær. Minnir mann á sakleysi barnæskunnar á glettinn hátt og sýnir jafnframt vel tíðarandann í Evrópu á þeim tíma sem hún gerist.
Allir gömlu bílarnir, gömlu hjólin, 60's fötin og húsgögnin, förðunin og hugsunarhátturinn - allt svo vel gert og fyllt svo mikilli nostalgíu að maður var hálf dolfallinn yfir því.

Leikurinn var stórgóður að mínu mati og greinilegt að Frakkar eiga gott úrval leikara þar í landi. Held að ég hafi hlegið alla myndina, kómísk og brandararnir voru ekki þannig að maður þyrfti eitthvað sérstaklega að skilja frönsku - sem betur fer.
Eitt af því sem mér fannst flottast við myndina var introið. Það var svona eins og úr pappa, eitthvað sem krakki hefði föndrað. Ótrúlega flott. Reyndi að finna það á youtube en gekk ekki svo ég ákvað að finna frekar mynd af því, eiginlega eins og teikningarnar í bókunum sjálfum.


Hefði án efa skellt mér á hana aftur hefði ég haft tíma og því ætla ég pottþétt að kaupa myndina eða niðurhala henni. Fór úr salnum með bros á vör og gleði í hjarta yfir einfaldleika og gleði barnæskunnar.
Mæli eindregið með þessari mynd. Cet un film magnifique!