Thursday, January 28, 2010

Notorious

Fyrir viku horfðum við á Notorious eftir meistara Hitchcock.
Ég og Tommi vorum einmitt með fyrirlestur um hann en ég náði ekki að horfa á myndina þá svo mér fannst bara fínt að fá að sjá hana svona í tíma.

Eins mikið og ég elskaði Ingrid Bergman í Casablanca þá fór hún pínu í taugarnar á mér í þessari mynd. Veit ekki alveg, en hún var alveg jafn falleg þrátt fyrir það - passaði líka vel inn í hlutverkið sem dóttir einhvers nasistagæja. Wunderbar.

Eitt sem ég tók eftir að mér þætti flott við myndina var lýsingin. Kannski var það hvernig ljósið féll á andlitið á Bergman, kannski bara birtuskilyrðin sem myndin var tekin við. En það heillaði mig allavega.

Huglæga skotið þegar hún liggur í rúminu og Devlin kemur inn hafði eiginlega þau áhrif á mig að mér leið eins og ég væri sjóveik. Eða að detta.
Annars fannst mér myndin góð, söguþráðurinn allt í lagi. Sumt svolítið óljóst, kannski vegna þess að hún kom út árið 1946 og stríðinu bara nýlokið.

Get þó sagt að mér fannst hún alveg það góð að ég gæti alveg horft á hana aftur.
En mundi samt ekki leigja hana sjálf.

Sunday, January 17, 2010

Mamma Gógó

Ég fór á Mömmu Gógó síðasta sunnudag og ákvað að bjóða mömmu minni með í bíó. Ég var með þeim yngstu í salnum og ég sver, ég hef aldrei verið svona lengi út úr sal eftir bíómynd.
Allt þetta hæga gamla fólk. Og tröppur. Mjög sætt.

Ég vissi ekki alveg út í hvað ég var að fara á Mömmu Gógó. Vissi lítið um söguþráðinn. Fannst einhvern veginn eins og þetta ætti ekki að vera að gerast akkúrat í nútímanum, ég var kannski of mikið að setja Friðrik Þór inn í þetta.
En góð ádeila á okkar tíma samt. Vísitölur og skuldabréf.

Þessi mynd er án efa ein af sætustu myndum sem ég hef séð og í fyrsta sinn í langan tíma táraðist ég í bíó af annarri ástæðu en að Lord of the Rings tríólógían væri búin eða eitthvað ámáta kjánalegt.
Alltaf jafn sorglegt þegar fólk týnist inn í heim alzheimersjúkdómsins og þessi mynd sýndi ótrúlega vel hversu erfitt það er fyrir bæði sjúkling og aðstandendur.

Það sem mér fannst eiginlega best við myndina var landslagsatriði þar sem hún fékk far með látnum eiginmanni sínum og við sjáum fallegan gamlan bíl og fallegt landslag í langri senu. Svo stígur hún út úr bílnum og hann keyrir tómur í burtu.
Og jú líka öll atriðin sem voru sýnd úr gömlu myndunum þar sem Kristbjörg Kjeld og Gunnar Eyjólfsson eru ung því þau pössuðu svo vel inn í myndina núna.

Ég veit eiginlega ekki hvort ég vilji vera að kryfja þessa mynd eitthvað til mergjar.
Er næstum því viss um að hún verður ódauðleg í íslenskri kvikmyndasögu.
Allavega fannst mér hún frábær, fyndin og sjúklega falleg.
Ástin sigrar í endann, gotta love it!

Takk fyrir mig, Mamma Gógó!
-Miriam

Monday, January 11, 2010

Bjarnfreðarson


Jæja, síðasta sunnudag fór ég á Bjarnfreðarson ásamt kærum vinkonum mínum tveimur.
Ég er svo heppin að þekkja ólíklegasta fólk og þessvegna þurfti ég ekki að borga mig inn.
Vúbbedídú. Sjúklega næs.

Ég horfði á alla Næturvaktina, sá ekki alla Dagvaktina og sá mjög lítið af Fangavaktinni, en þó - ég þekki karakterana nógu vel til að ég var ekkert týnd í bíó þarna á sunnudaginn.
Það liggur við að ég hefði getað séð Bjarnfreðarson án þess að hafa séð Vaktirnar og samt vera ekkert týnd - en þó, sumt hefði komið afar spánskt fyrir sjónir.

Mér fannst mjög gaman að fá leikstjórann í heimsókn enda fékk ég svör við mikið af pælingum í þeim tíma. Svona eins og þegar ég hugsaði "vóóóóó er Georg hommi?!" - ætla að túlka þetta sem að hann sé bara svona stórt barn sem vantaði e-n til að leika við.
Á tímabili var ég reyndar búin að gleyma Flemming Geir (sem ég sá í Mjóddinni um daginn BTW!) og hugsaði þá alltaf "Georg hefur aldrei stundað kynlíf". En einhvern veginn komst krakkinn undir. Svo..

En byrjum á byrjuninni.
Myndin sjálf.

Mér finnst eins og ég sé alltaf að segja að mér finnist myndir æðislegar. Svo.. ég ætla að segja að mér hafi fundist hún stórkostlega góð.
Bara til að breyta út á vanann.

Ég elskaði að fá að vita forsöguna um Georg, skoða barnæskuna hans og fröken Bjarnfreði. Get eiginlega ekki lýst því hvað ég var reið út í hana. Svona miðað við að ég þoldi ekki Georg í Næturvaktinni en svo fékk ég allt aðra sýn á hann á Bjarnfreðarsyni. Enda markmiðið með myndinni nokkurn veginn.

Öll atriðin sem sýndu uppvöxt hann voru mér mjög að skapi, elska svona blast to the past dæmi. Sérstaklega Ísland á þessum tíma. Eina sem böggaði mig reyndar pínu er Keflavíkurgangan. Voða fámenn eitthvað.
Langaði að taka alla litlu Georgana og knúsa þá - svo litlir og sætir og rauðhærðir og misskildir greyin. Pældi mjög mikið í öllu tengdu barnæsku hans, fötunum og öllum öðrum leikmunum. Virkilega vel gert að mínu mati.

Myndin var bara æðislega fyndin yfir höfuð, stundum svona pínu lítið vandræðaleg og oft sem mig langaði að stökkva inn í og slá Ólaf þegar hann var leiðinlegur við Georg. En það lagaðist í endann.
Ég fékk reyndar á tilfinninguna að ökukennarinn hefði verið hommi þó að ég hafi alveg séð það fyrir mér að hann og kona Daníels myndu enda saman. Hann var bara svo hommalegur greyið. Að búa til e-n fkn ostarétt sem ég get ekki einu sinni ímyndað mér að geta búið til sjálf.
allavega.. nóg um það.
Fannst gaman að sjá Ólaf Ragnar blómstra í stúdíó FM 957 - enda Pétur Jóhann vanur því umhverfi - en hann er náttúrulega táknmynd þessarar týpu, sem ég vanalega þoli ekki svo innilega. En þar sem hann er svolítið misheppnaður líka þá get ég ekki annað en elskað Forsetann.

Fannst þetta hreint út sagt æðisleg mynd bara,
en ég pældi annars lítið í einhverjum tökum og tækniatriðum, var svo heilluð af söguþræðinum. Sökk algjörlega í hann.
Mynd sem ég ætla klárlega að horfa á aftur sem fyrst, í engum vafa um það!

-Miriam-sem-var-statisti-í-loka-atriði-Dagvaktarinnar-þegar-Ólafur-fer-á-froðudiskó-á-Benidorm-osom!

Zack and Miri make a porno

Fyrsta bloggið á nýju ári að detta í hús. Kannski svolítið seint, kominn 11. janúar. Það verður um mynd sem ég sá seint í jólafríinu og heitir Zack and Miri Make a Porno.
Vil byrja á að benda á að það er fáránlega erfitt fyrir mig að skrifa bara Miri, ekki Miriam. Ruglast næstum því alltaf. Enda hét gellan í myndinni Miriam, bara kölluð Miri (hæfæv fyrir að nafnið mitt skyldi koma fram í mynd! næsone)

Myndin er semsagt um vinina Zack og Miri sem búa saman við ákaflega þröngan kost og þegar þau eru alveg að verða uppiskroppa um hugmyndir um að græða pening dettur þeim í hug að það gæti verið góð hugmynd að taka upp klámmynd til að græða pening. Þau fá vini og kunningja til að hjálpa sér og eru svo með áheyrnaprufur fyrir leikara. Auk þess sem þau hyggjast koma fram í myndinni sjálf, en það kemur svo á daginn að þau fara að verða afbrýðissöm út í hvort annað og eftir senuna á milli þeirra fara tilfinningarnar að trufla þau.

Það sem kom mér helst á óvart var hvað það var mikil nekt í myndinni. Ekki að það hafi farið í mínar fínustu, langt því frá, maður er bara ekki vanur að sjá bandarískar myndir innihalda brjóst og kynlíf sem er ekki undir sæng eða verulega klippt.

Gnægð er af góðum leikurum í þessari mynd, t.d. Seth Rogen sem leikur meðal annars í Pinapple Express (sem ég horfði á í gær og hló óstjórnanlega mikið yfir), Craig Robinson sem lék einnig í Pinapple Express, Jeff Anderson (lék í Clerks) og Jason Mewes, einn af uppáhalds karakterunum mínum ever - Jay (Jay and Silent Bob). Gaman að sjá hann stutthærðan og frekar-mikið-naktann.

Auk þess má nefna að Elizabeth Banks fékk hlutverk Miri í myndinni eftir að Rosario Dawson hafnaði því (hefði nú ekki hatað að sjá hana leika Miri, þó svo að Elizabeth hafi alls ekki staðið sig illa).

Er ég að gleyma einhverju?
Jaa.. myndin heitir nú Zack and Miri make a porno svo það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að tvær yndisfríðar klámmyndaleikkonur hafi verið fengnar til að leika í henni.
Þær Katie Morgan (Roxanne) og Traci Lords (Bubbles) stóðu sig bara prýðilega í myndinni, meira segja í þeim senum þar sem þær höfðu línur og þurftu á leikhæfileikum að halda.

Myndin er fyrst og fremst gamanmynd sem snerti mínar fínustu hláturstaugar, finnst mjög gaman að gera grín af lélegum handritum klámmynda og samtölunum sem eru í þeim en sérstaklega þótti mér fyndin hugmyndin um að nota Star Wars sem grunnhugmynd að klámmynd.
Hló mjög mikið yfir því.
*spoiler*
Varð eiginlega fyrir jafn miklum vonbrigðum og persónurnar þegar sú hugmynd klúðraðist þegar stúdíóið var rifið. En neyðin kennir naktri konu að spinna - þá var að nota það sem hendi var næst: vinnustað Zeths. Kaffihús..

Myndin endaði þó voða krúttlega en á fyndinn hátt. Kannski ekki eitthvað sem ég ætla að kjafta frá hérna, fannst hún mjög góð - ekki nein tæknileg snilld. Bara mjög skemmtileg mynd, sem ég býst samt eiginlega ekki við að horfa aftur á fyrr en ég verð búin að gleyma þessu bloggi og um hvað myndin er.



-Miriam