Ég hafði heyrt myndina nefnda mjög oft og var búin að byggja upp örlitla spennu fyrir henni.
Fannst sniðugt að hugsa til þess að filmurnar hefðu verið dregnar eftir gólfinu í upphafsatriðunum til að þær litu raunverulegar út og fannst mér það takast vel. Minnti mig á alvöru fréttamyndir frá þessum tíma.
Annars verð ég sennilega að flokkast undir þann hóp manna sem fannst myndin ekki góð, hún var alltof löng til þess að ég hefði þolinmæði í hana vegna þess að mér fannst áhugaverð atriði gerast með of löngu millibili. Kannski hafði ég bara ekki nægan skilning í þetta meistaraverk en þá verður það bara að vera svo. Það komu jú fyndin atriði inn á milli og ég hló innilega nokkrum sinnum en í heildina þá einfaldlega sá ég ekki þetta frábæra dæmi sem hvílir yfir nafni myndarinnar. Fannst leikurinn heldur ekkert til að hrópa húrra yfir.
En ég var að koma úr bíó og Up varð fyrir valinu (okey ég lýg, Inglorious Basterds varð fyrir valinu en það var uppselt á hana svo ég fór á Up). Hef alltaf ætlað að sjá þessa mynd og eftir að hafa lesið nokkur góð blogg hérna um hana þá var ég handviss um að þessa vildi ég sjá. Myndin er frá Pixar og að sjálfsögðu góð því að Pixar menn kunna ekki að gera lélegar myndir.
Venjulega er ég mjög skeptísk á þrívíddarmyndir vegna þess að ég fór einu sinni á mjög lélega þrívíddarmynd í bíó þar sem mig minnir að eitt spjót hafi skotist út úr skjánum og annars fékk ég hausverk af gleraugunum og þessu þrívíddardóti sem mér fannst ekki virka voðalega vel. Hinsvegar var sagan önnur á Up.
Vá. Ég var orðlaus fyrstu mínúturnar þegar ég var að venjast þessu. Þetta var magnað, alveg hreint! Er ennþá örlítið í þeim fíling að vera andvarpandi yfir því hvað mér fannst myndin góð.
Byrjum á byrjuninni. Saga parsins var svo falleg að ég var næstum því farin að tárast (kom kannski smá tár....) og mér leið eins og ég hefði horft á heila bíómynd þegar það kom smá bil frá því að hún deyr og líf hans heldur áfram. Ég hefði getað labbað út og hætt þarna, á góðan hátt, vegna þess hversu mér leið eins og kynningin á lífi þeirra hefði tekið heila eilífð. Ástin var svo einlæg og hún kom svo skírt fram.
Síðan kynnumst við Russell. Svo yndislega klaufalegur og innilegur lítill strákur sem mig langaði bara að taka og knúsa og gefa súkkulaðikökur. Minnti mig svolítið á nördabarnæsku mína, ekki að ég hafi verið skáti eða eitthvað. Var bara svo mikill klaufi og trúði öllu sem við hann var sagt. Voða mikið ég.
Allt umhverfi myndarinnar er ótrúlega vel gert, eins og við mátti búast af Pixar og gat ég eytt alveg nokkrum sekúndum af hverri senu í að drekka umhverfið í mig, bara gapa og njóta og hugsa "vá magnað."
Ég gæti hætt að blogga núna en þá væri ég að gleyma einu.
Þessi mynd er ótrúlega ótrúlega ég-tárast-úr-hlátri-og-geri-grísahljóð fyndin.
Vá sko. Ég hló svo mikið. Dýrin voru alveg frábær, allt frá fuglinum, hundunum og til frosksins sem var þarna í einni senu. Var eiginlega að vona samt að hann færi með þeim út um allt, en hann bara fór. Oh jæja.
En ég held að ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið af Alpha hundinum með biluðu raddólina. Og ef ég mætti óska mér eins þá ætti ég hundinn Doug með ólina sína (og væri ekki með ofnæmi fyrir öllum loðnum dýrum)!
Aðrir punktar sem ég man eftir akkúrat núna sem mér fannst mjög góðir:
- Skeggrótin á gamla karlinum óx. Maður fann fyrir tímanum sem leið.
- Að vera bara eitthvaa... squirrel!!!... að spjalla við hundafélaga sína.
- Birtan í myndinni. Fallegust fannst mér hún þarna þegar það var kominn morgunn og það var allt bleikt einhvern veginn. Ótrúlega flott.
- Fjaðrirnar á fuglinum. Langaði svo rosalega að snerta þær, virtust vera svo mjúkar!
Í heildina litið er þessi mynd æðisleg og ef ég ætti að setja hana inn á Topplistann minn væri hún frekar ofarlega. Mér leið svipað eftir að hafa horft á Up og mér líður yfirleitt eftir að hafa horft á Lackawanna Blues. Ótrúlega ánægð og undarlega sátt með lífið.
Góða nótt.
Flott færsla. 7 stig.
ReplyDeleteInnilega sammála með Up, alveg hreint frábær mynd.
Nú þegar þú minnist á fuglinn, þá dettur mér í hug að hann (og sérílagi fjaðrirnar) hafi verið ein af þessum tæknilegu hindrunum sem Pixar-menn einsettu sér að yfirstíga í þessari mynd.
Varðandi Kane: sjálfum finnst mér hún mjög góð, en ég skil vel afstöðu þína. Ég meina, hún er t.d. ekki á topplistanum hjá mér...