Saturday, September 26, 2009

Bi The Way

Á mánudaginn fór ég svo aftur í bíó og sá hina stórgóðu heimildarmynd Bi The Way. Hún fjallar um tvíkynhneigð og er orðaleikur titilsins skemmtilegur.
Myndin er í raun ferðalag tveggja ungra stúlkna í gegnum Bandaríkin þar sem þær taka upp viðtöl við fólk sem þau kynnast á leiðinni. Það fer varla framhjá neinum að þær hafa tekið upp gífurlegt magn af efni því þær hafa valið bestu bútana úr og úr því varð þessi stórgóða heimildarmynd.

Áhugaverðasta persóna myndarinnar var litli strákurinn Josh sem átti tvíkynhneigða móður og samkynhneigðan föður, en aðeins 11 ára gamall var hann farinn að pæla í hlutum sem börn á hans aldri hugsa sjaldnast um.
Einn daginn ætlaði hann að vera klæðskiptingur, annan daginn hafði hann áhyggjur af því hvort hárið á honum væri nógu fínt, annan daginn ætlaði hann að vera hommi eins og pabbi hans en stundum var hann ekki alveg viss. En foreldrar hans voru duglegir að segja honum að vera bara hann sjálfur, sem mér þótti frábært.

Aðrar persónur koma við sögu og við fáum innsýn í líf þeirra eins og til dæmis stúlkan hún Pam sem var einungis 16 ára en virtist hafa upplifað svo margt. Faðir hennar var alls ekki sáttur við kynhneigð hennar en mamma hennar, sem bjó á móteli, vildi bara að hún væri hún sjálf.

Auk þess var skyggnst inn í líf fleira fólks en ég ætla ekki eyða meiri tíma í að tala um það.
Myndin er vel tekin og eru landslagsmyndir á ferðalagi þeirra gjarnan sýndar sem gefa myndinni notalegan blæ og maður finnur fyrir því að þetta var ferðalag í gegnum öll Bandaríkin. Auk þess stoppa þær inn á milli til að spurja vegfarendur um skoðun þeirra á tvíkynhneigð, sem er áberandi neikvæð í suðurríkjunum en svo er fólk sem kemur manni á óvart inn á milli. Maður sem leit út fyrir að vera þessi tíbíski "red-neck", tannlaus og rauður, sem sagði bara að við ættum öll að geta elskað þann sem við vildum elska. Ég veit að ég dæmdi hann allavega fyrirfram.

Sem er náttúrulega eitthvað sem maður á ekki að gera, en ég vil meina að ef ég hefði farið á myndina með fordóma í garð tvíkynhneigðar eða samkynhneigðar sem myndin fjallar að sjálfsögðu örlítið um, þá hefði hún örugglega orðið til þess að fordómar mínir hefðu minnkað.
En þar sem ég tel mig vera nokkuð fordómalausa gagnvart kynhneigðum manna þá var myndin aðallega skemmtileg heimildarmynd fyrir mig, mjög góð skemmtun og auk þess er hún ótrúlega fyndin í þokkabót.

Held að ég hafi aldrei hlegið jafn mikið á heimildarmynd.
Takk fyrir mig.