Thursday, November 19, 2009

ZOMBIELAND

Litlir fuglar hvísluðu því að mér að þessi mynd væri góð, svo þegar æskuvinur minn ákvað að bjóða mér með sér á hana þá ákvað ég að skella mér. Mér til mikillar armæðu þurfti ég samt að borga á hana sjálf. Fáránlega dýrt að fara í bíó.

Ég vissi eiginlega ekkert um myndina, ég bjóst eiginlega ekki við því að hún væri actually um uppvakninga, heldur héti bara Zombieland og væri sjúklega fyndin mynd.

En svo byrjaði hún og viti menn hún var um uppvakninga.
Sögumanns/aðalpersónan var mér mjög að skapi. Hálf lúðalegur gaur sem virtist hafa ágætis ástæður fyrir því að ferðast einn.
Lýsingarnar á því hvernig skal lifa af árásir uppvakninganna eru mjög kómískar, sérstaklega þar sem sýnidæmi eru gefin á meðan.
Ég skammaðist mín ekkert af því að hlæja af því þegar hann skaut hvern uppvakninginn á fætur öðrum. Það var svo fyndið.
Fannst alveg aulalega gaman að sjá hvernig orð voru sett inn í myndina og litu út fyrir að vera svífandi, fannst það frekar vel gert að þegar einhver hljóp á þau þá færðust þau til.
Aulalega gaman. Ekkert svo merkilegt í sjálfu sér en setti vissulega mjög skemmtilegan svip á myndina.

Ég skemmti mér ótrúlega vel á myndinni, Woody Harrelson sem lék Tallahassee var æðislegur að mínu mati. Náði þessari týpu ótrúlega vel.
Ég varð reynar örlítið klökk þegar ég áttaði mig á því að hundurinn (sem hafði gert hann að kjánalega hardcore gæja) hafði verið líking fyrir son hans sem hafði týnst í uppvakningaárásunum.
Samt ekki þannig klökk að ég færi að gráta. Meira svona awwwwwwwww... Dæmi.
Svo gleymdist það fljótlega og ég fór að hlæja yfir einhverju.

Atriðið með Bill Murray var náttúrulega bara snilld. Samt ótrúlega fyrirsjáanlegt það sem gerðist þegar hann ætlaði að hræða lúðann okkar með því að fara inn í bíósalinn í Zombie búningnum.

Annars þá fannst mér eitt kjánalegt við handritið. Ég geri mér grein fyrir, enda kom það fram í myndinni, að systurnar vildu bara treysta á hvor aðra og það allt. En ég persónulega hefði haldið að það væri betra - og heilbrigðara - fyrir þau öll að reyna að halda hópinn.
Þessvegna fannst mér fáránlegt af þeim að vera alltaf að stinga af.
Ef ég væri ein af tveimur kvenmönnum sem eftir væru án þess að vera uppvakningar, þá mundi ég frekar vilja halda mig með fleira fólki en færra.
- En jújú þær vildu bara hafa hvor aðra, ætli ég verði ekki að virða það.

Annars fannst mér þessi mynd bara ótrúlega góð, samt ekki það góð að ég fengi svona "ég verð að horfa á hana strax aftur!" - held nefnilega að hún gæti verið svona mynd sem er góð við fyrsta áhorf og svo bara svona ehh..hehehe æ já þetta atriði..
En ég veit það væntanlega ekki fyrr en ég sé hana.
Tökurnar fannst mér oftast bara nokkuð góðar, mjög oft bjóst ég eiginlega alltaf við að sjá e-a uppvakninga stökkva inn á skjáinn. Fannst líka gaman að fylgjast með þeim keyra á vegum með fullt af drasli á, hefur eflaust verið gaman að leika sér að keyra yfir það allt.

-Semsagt.
Þessi mynd er snilld. Ég ætla samt að gefa henni smá tíma áður en ég horfi á hana aftur. Fullt af smáatriðum sem fengu mig til að hlæja ótrúlega. Eins og þegar Columbus (Jesse Eisenberg) er að lýsa hvernig þetta hófst og það kemur atriði með litlum stelpum í prinsessukjólum sem stökkva aftan á bílinn hjá konunni sem er að reyna að flýja, guð minn góður hvað ég hló.
Hló reyndar líka - ásamt því að vera sjúklega hrædd, þó ég hræðist þá sjaldan, - þegar trúðurinn kom.
Columbus: Fuck this clown.
*splatter*

Myndin inniheldur annars fullt af gullkornum, þarf að skemmta mér við það einhvern tímann að skoða quote-in því línurnar voru gjarnan stórgóðar í þessari mynd.

Ástæður uppvakninganna meika líka alveg sens. Þetta er semsagt sjúkdómur. Eitthvað sem kemur fyrir heilann. Það er gott. Svo oft nefnilega sem það týnist í svona myndum og þá er maður allan tímann að einblína á það "afhverju í andskotanum eru þau samt uppvakningar?!?!?" - sem mig minnir að ég hafi hugsað á I am Legend... en það er langt síðan ég sá hana svo ég er ekki alveg viss.

Allavega.
Mæli með henni,
takk fyrir mig.

Thursday, November 12, 2009

Casablanca


Í gær horfðum við á Casablanca. Áður en við sáum þessa mynd þá var ég farin að hafa áhyggjur af því að ég væri eitthvað gamalla-kvikmynda-óhæf því ég hef lítið fundið mig við gláp á hinum myndunum sem voru svona "gamlar-klassískar."

Annað kom þó á daginn í þessari.
Casablanca hélt mér við skjáinn allan tímann. Hvort það var ómótstæðileg fegurð Ingrid Bergman, gæðaleikur frá Humphrey Boghart eða ótrúlega fallega sviðsmyndin. Ég veit það ekki, ég veit bara að ég sat og glápti og allan tímann var þessi "vá" factor hangandi yfir mér.

Myndin kom út árið 1942 og var birtingu hennar flýtt til þess að njóta góðs af innrás Bandamanna inn í Norður Afríku, enda gerist hún í Casablanca, Marokkó. Hún fjallar um mann, leikinn af Humphrey Boghart, sem rekur bar þar sem auk þess eru spiluð áhættuspil. Hann er voðalega svalur á því alltaf en svo komumst við að því að hann var ástfanginn í byrjun stríðsins en fór frá París vegna innrás nasista og hún, sem ætlaði að fara með honum, varð eftir. Síðan, auðvitað, kemur hún til Casablanca ásamt eiginmanni sínum og aðalpersónan okkar verður að velja milli þess að hjálpa þeim eða ekki.

En auðvitað vil ég ekki kjafta frá neinu, mér finnst söguþráðurinn í þessari mynd mjög góður, raunverulegur og hann höfðar til mín, sem áhugamanneskju um seinni heimstyrjöldina.
Eitt sem ég elska við myndina, og er auðvitað óhjákvæmilegt miðað við að hún er tekin upp 1942, er að hún er svarthvít. Ef mér stæði það til boða að sjá hana í lit þá mundi ég ekki vilja það. Fyrir mér var það að horfa á þessa mynd eins og að horfa á listaverk, leikmyndin var öll rosalega falleg og þó að sumt hafi verið örlítið gervilegt þá fór það ekkert í taugarnar á mér, það var bara allt annað svo flott við hana.

Eitt sem mér fannst mjög gaman var að sjá atriðin sem voru á markaðnum, fékk alveg
Marmaris-flash-back, söluaðferðir á svona stöðum virðast vera óbreyttar milli tíma og landa. Þessi mynd hafði líka þau áhrif á mig að ég fór og las næstum alla wikipediagreinina um hana, en það eru bara myndir sem hafa virkileg áhrif á mig sem fá mig til að gera það.

Í heildina get ég sagt að ég hafi notið myndarinnar, fannst tökurnar fallegar, handritið meika sens og leikararnir standa sig vel.
Það er ekkert skrítið að þessi mynd sé talin ein af þeim bestu, fyrir mér er hún núna ein af þeim bestu og á ágætis möguleika á að vera inná Topp 10 lista hjá mér, ef ég geri hann einhvern tímann.

Takk fyrir mig!

Tuesday, November 10, 2009

Handritagláp

Einhvern tímann fyrir löngu var okkur sett það verkefni að lesa handrit og horfa á bíómynd. Helst einhverja sem við höfðum ekki séð áður. Vegna þess hversu ótrúlega mikill uppreisnarseggur og bóhemisti ég er þá ákvað ég að horfa á mynd sem ég hef séð áður (samt langt síðan síðast) og heitir því nafni er á íslensku mundi útleggjast Myllan Rauða.

Ég tók strax eftir ýmsu við lestur handritsins sem ég hafði aldrei pælt í áður. Um það ætla ég að nefna fyrst að í upphafi myndarinnar sjáum við svið, fyrir framan tjöldin stendur maður. Honum hafði ég aldrei tekið eftir áður. Tjöldin lyftast og við sjáum Twentieth Century Fox logoið ásamt því að lagið kemur og á sama tíma hreyfir maðurinn sig eins og hann sé að stjórna hljómsveit sem er að spila lagið. Þessu tók ég eftir í fyrsta skipti núna áðan vegna þess að ég las það í handritinu. Það breytist síðan í Moulin Rouge logoið og sambland af tónlist úr myndinni og áfram stendur þessi maður og stjórnar tónlistinni.

Svo kemur smá kynning á bohemísku umhverfi Parísar sem gerist mjög hratt og því var gaman að hafa lesið nákvæma lýsingu á þessu í handritinu og þ.a.l. tók ég betur eftir smáatriðum. Finnst öll þessháttar umgjörð myndarinnar mjög flott, þ.e. umhverfið í París árið 1900 er tölvuteiknað að hluta en samt einhvern veginn þannig að það fer ekki í taugarnar á mér.
Það er svo stútfullt af smáatriðum sem fara svo hratt framhjá að það eina sem maður hugsar er
vá.

Á meðan á þessari kynningu stendur er Toulouse-Lautrec, sem við sjáum síðar í myndinni, að syngja lag. Málið er að hann sést í byrjun Parísar-kynningarinnar en ég tók að sjálfsögðu ekki eftir því fyrr en eftir að ég las handritið og þó ég hefði séð hann án þess að h
afa lesið handritið hefði ég ekki fattað að þetta ætti að vera persónan Toulouse-Lautrec. Montmarte hverfið sem sagan gerist í er afar hrörlegt í þessu atriði og myllan rauða stendur yfirgefin.



Þetta þótti mér afar áhugavert. Ég las aðeins handritið upp að því marki þegar allir fara að syngja og dansa og þá var aðallega eitt atriði sem ég pældi mikið í. Atriðið alveg í byrjun þegar Ewan McGregor situr gráti nær á gólfinu í íbúð sinni.

Hann túlkar tilfinningarnar mjög vel, það sem kemur fram í einni setningu "about to cry" í handritnu er ákaflega stór hluti senunnar. Ef hann hefði ekki leikið þetta vel, þá væri hún ónýt. Blessunarlega fyrir okkur öll þá leikur hann þetta stórvel.


Í byrjun er allt í frekar brúnleitt, eins og gamlar ljósmyndir, en einstaka litur eins og rauður fær að skína í gegn. Ég túlkaði það þannig að rauður væri litur ástarinnar og þessvegna væri hann sýndur. Síðan koma litirnir inn allt í einu, en samt ekki á svo áberandi hátt að maður taki eftir því.

Ég elska líka hvernig myndatakan í atriðinu þegar hann er í herberginu sínu í upphafi myndar, eftir að hún deyr.
Ritvélin hans kemur allt í einu í nærmynd, eftir að hann er sýndur sitja upp við vegg, og allt annað úr fókus, einnig hann sem situr í horninu.
Myndavélin hallar og
mögulega er verið að gefa í skyn áhrifin sem hann er undir, mjög líklega sorg blönduð víni. Myrkrið í herberginu sýnir vel hversu illa honum líður, enda gerist þetta atvik eftir að hún deyr, gellan þarna sem hann elskar, Satine.

Á einum tímapunkti er næstum allt mjög dimmt í herberginu fyrir utan kerti í horninu og daufa birtu sem skín inn um gluggann. Við horfum ofan á þetta allt. Hann stendur fyrir framan ritvélina. Þetta skot fannst mér ótrúlega fallegt. Fann því miður enga betri mynd

Síðan kom skemmtilegt atriði þar sem sýnt var hvernig hann kom til Parísar, myndin sem dregin er upp af Montmarte í því atriði er mun glaðlegri en í byrjun myndarinnar, á meðan Toulouse er að syngja og
endurspeglar það bjartsýni hans þegar hann kemur til Parisar en niðurdregna, þunglynda myndin af Montmarte endurspeglar líðan hans eftir að Satine deyr.
Eftir það dettur síðan Argentínumaður niður um loftið hjá honum, mjög fyndin sena og svo kemur aðal kynningin á Moulin Rouge.


Allir dansararnir, litadýrðin, tónlistin...
Mikið er lagt upp úr því að hafa það sem er utandyra grátt og leiðinlegt og fyrir innan, í rauðu myllunni þar sem ríkir eilíf gleði og nautn, er allt í skærum, skrautlegum litum.


Ég nennti ekki að horfa á alla myndina í þetta sinn, þó mér finnist hún góð. Svo þetta mat mitt á byrjun hennar út frá handritinu verður að duga í kvöld. Kannski maður ætti að lesa handrit oftar, svona til að sjá smáatriðin betur.

merci beaucoup,
Miriam


Var með nokkrar myndir sem hurfu allt í einu, hef ekki tíma til að laga þetta núna, geri það sem fyrst.